Almennt um Kötlusetur
Draumur margra Mýrdælinga rættist
19. nóvember 2010 þegar Kötlusetur var stofnað en þá loks var komið á fót þekkingarsetri í Vík. Setrinu er ætlað það hlutverk að vera fræða- og menningarsetur í Mýrdal. Verkefnin fyrst um sinn er að sinna safna- og menningartengdri starfsemi sem komin er á fót í Brydebúð og vinna að mótun og eflingu ferðaþjónustu í sveitarfélaginu. Þá er Kötlusetur stofnaðili að Kötlu jarðvangi (Katla Geopark) sem sem nýlega fékk inngöngu í European Geoparks Network (EGN) og UNESCO Global Network of Geoparks.
Ferðaþjónusta hefur lengi verið mikilvæg atvinnugrein fyrir Mýrdælinga. Í dag er það svo að Vík er fjórði mest heimsótti staður á Íslandi samkvæmt könnunum Ferðamálastofu og margfaldast íbúafjöldinn á staðnum yfir sumartímann. Til vitnis um það eru vel yfir 600 gistirými í Mýdalshrepp en aðeins um 470 íbúar. Gera má ráð fyrir því að um 2500-3000 gestir heimsæki Vík daglega í júlí og ágúst. Kötlusetri er ætlað að sinna þessum gestum og vera tengiliður þeirra og ferðaþjónustuaðila í Mýrdal. Þar af leiðandi hefur Kötlusetur tekið að sér að efla samstarf ferðaþjónustuaðila á svæðinu, m.a. hvað varðar upplýsingagjöf til ferðamanna og markaðssetningar á Mýrdalnum. Mikil vinna hefur farið í undirbúning þess samstarfs og markaðssetningar vegna ársins 2012. Markmiðið er að fá ferðaþjónustuaðila í auknum mæli að rekstri setursins.
Unnið er að eflingu menningarviðburða og ferðaþjónustu í Mýrdalshreppi. Menningarfélagið um Brydebúð hafði unnið mikið starf við endurbyggingu hússins og safnað þangað mörgum merkum munum er tengjast sögu Mýrdalsins. Þar hafa verið settar upp sýningar um mannlíf og náttúru í Mýrdal með áherslu á eldstöðina Kötlu. Næsta verkefni er að setja upp sýningu í tengslum við sjósókn frá hafnlausri strönd Suðurlandsins með vélbátinn Skaftfelling sem meginþema en hann þjónaði Skaftfellingum og Vestmannaeyingum um fjögurra áratuga skeið á fyrri hluta 20. aldar. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvað skuli gera við þriðja húsið, Halldórsbúð. Halldórsbúð er í mikilli niðurníðslu og óvíst hvort og þá hvenær hægt verður að hefjast handa við endurgerð hússins. Ljóst er að þegar lokið hefur verið við uppbyggingu þessara húsaþyrpingar mun hún gjörbylta ásýnd Víkur fyrir þá sem eiga leið um staðinn og verða mikil upplyfting í menningar- og jarðfræðitengdri ferðaþjónustu á svæðinu.
Rekstur Kötluseturs
Það er ljóst að Mýrdælingar hafa mikla trú á Kötlusetri og hafa lagt því til bæði fjármagn og fasteignir að verðmæti sem skara hátt í 100 milljóna króna auk mikillar sjálfboðavinnu sem ekki verður metin til fjár. Um leið er aftur á móti ljóst að til þess að hægt sé að halda uppi þeirri þekkingarstarfsemi sem stefnt er að þarf að koma til fjármagn frá fleiri aðilum. Kötlusetur hefur mikilvægu hlutverki að gegna fyrir Mýrdalinn, svæði sem hefur átt undir högg að sækja, sem miðstöð menningar og ferðaþjónustu.