top of page

Gönguleiðir í Mýrdal

 

Smelltu hér til að finna öll gönguleiðakort Kötlu jarðvangs​>

Mýrdalurinn er paradís göngumannsins! Mikið er til af fallegum gönguleiðum í Vík og nágrenni.  Reynisfjall sem er heimafjall Víkurbúa er mjög vinsælt að ganga og í stuttri fjarlægð frá þorpinu. Hægt er að velja að fara allan hringinn um sex km eða út að Lóransstöð sem er um tveir km. Síðan eru tvær aðra gönguleiðir frá Vík, Hatta og Grafargil.

Textar eru teknir af heimasíðu Kötlu Jarðvangs

Hjörleifshöfði

Vegalengd: 4 km            

Hækkun: 400-500m              

Tími: 1-2 klst.                    

Upphafsstaður: Bílastæði við Bæjarstað, vestan í Hjörleifshöfða.

Leiðarlýsing: Mælt er með að ganga þessa leið réttsælis. Gengið upp úr Bæjarstaðagilinu sunnan megin. Þegar upp er komið er sveigt til suðurs. Fyrst er gengið um svæði sem heitir Hurðarbök en sunnar um svokallaða Dalabotna, með klettaborg sem heitir Sauðafell á vinstri hönd. Ekki er ólíklegt að þetta sé leiðin sem Ingólfur Arnarson og menn hans báru hjörleif til greftrunar uppi á hæsta hnúk höfðans. Eftir að hafa notið útsýnisins og skoðað grafreitinn og Hjörleifshaug er haldið til vesturs, niður Hjörleifshraun, eftir þýfðri grastorfu og þaðan sveigt til norðurs fram á brún svokallaðrar Bæjarbrekku. Þar blasir við  gamla túnið ásamt bæjarrústunum tveim sem þar eru ásamt svörtu sandhafinu sunnan Höfðans. Áfram er haldið niður að rústunum og síðan niður Klifið og inn með rótum Sláttubrekku inn í Bæjarstað þar sem ferðin hófst.

IMG_7844.jpg

Leiðir sem hefjast í Vík

Sögulega Vík

Vegalengd: 4 km            

Hækkun: 20 m              

Tími: 1-2 klst.                    

Upphafsstaður: Vík í Mýrdal – sunnan við Icewear Magasín verslunarkjarnann.

Leiðarlýsing: Frá bílastæðinu liggur greiður göngustígur að Víkurfjöru. Farið er yfir göngubrú og staldrað við minnisvarðann För (Voyage) eftir Steinunni Thorarinsdóttur. Áfram er gengið vestur eftir stígnum eða í fjörunni að minnisvarða um drukknaða sjómenn, við rætur Reynisfjalls. Frá minnisvarðanum liggur leiðin eftir Hrapinu svokallaða þar sem gefur að líta gamla kartöflugarða og kofarústir ásamt ríku fuglalífi. Stígurinn liggur inn í gamla Víkurþorp „að baka til“ og þar má sjá elstu hús bæjarins, flest byggð í kring um aldamótin 1900. Tekinn er smá hlykkur af Víkurbrautinni á Sunnubraut til að líta á Halldórsbúð (frá 1903), gamla sláturhúsið og nýja brugghúsið Smiðjuna. Þá er tekin vinstri beygja upp Skólaveg og aftur inn á Víkurbraut, að einstöku hraunsýningunni í gamla kaupfélagshúsinu. Þaðan liggur leiðin upp á milli trjáa inn á Bakkabraut og norður eftir henni þar til komið er að þjóveginum. Þar er gengið yfir og til vinstri inn í grænt svæði sem kallast Syngjandinn. Þarna eru leyfar gömlu rafstöðvarinnar í Vík, frísbígolf völlur og aðstaða til leikja og útikennslu. Úr syngjandanum liggur leiðin um hlaðið að Norður-Vík og niður að Suður-Vík. Þessir tveir bæir stóðu hér áður en þorp tók að myndast niðri á sandinum. Áður en hringnum er lokað má ganga upp að Víkurkirkju. Sunnan við kirkjuna er stígur niður brekkuna, á milli fallegra timburhúsa. Þegar niður er komið liggur leiðin aftur á upphafsstað við verslunarkjarnann.

Minnisvarðinnn För (Voyage). Mynd: Máni.

Reynisfjall

Vegalengd: 6 km            

Hækkun: 250 m              

Tími: 2-4 klst.                    

Upphafsstaður: Vík í Mýrdal - Hjá Kötlusetri (Brydebúð) í Vík.

Leiðarlýsing: Gengið um Reynisfjallsveg upp á Reynisfjall. Þegar komið er upp er leiðin stikuð. Gengið er með austurbrún fjallsins fram á bergið fyrir ofan Reynisdranga (eða veginn að gömlu Lóranstöðinni), síðan eftir vesturbrún til móts við Presthús. Þaðan austur yfir að veginn upp á fjallið og síðan niður sömu leið.

 

Ganga um norðurhluta fjallsins eftir austurbrúnum þess inn fyrir Innra Grafarhöfuð og síðan til baka með vesturbrúnum lengir gönguna um allt að 4 km.

Útsýnið á Reynisdranga frá Reynisfjalli. Mynd: Máni.

Hatta

Vegalengd: 10 km            

Hækkun: 500 m              

Tími: 4-5 klst.                    

Upphafsstaður: Vík í Mýrdal - Bílastæði við Víkurkirkju. Leiðin er stikuð.

Leiðarlýsing: Gengið um Bratthól upp á Víkurheiði og á Höttu (504 m). Haldið er sömu leið til baka með brúnum Víkurheiðar, í stað þess að fara niður hjá Bratthól er haldið áfram í austur og komið niður við Uxafótalæk. Genginn er gamall þjóðvegur með Víkurhömrum og í gegnum Víkurþorp að upphafsstað.

Útsýnið frá Höttu. Mynd: Jónas Erlendsson.

Grafargil

Vegalengd: 5,5 km            

Hækkun: óveruleg              

Tími: 2-3 klst.                    

Upphafsstaður: Vík í Mýrdal - Bílastæði við Víkurkirkju. Leiðin er stikuð.

Leiðarlýsing: Gengið frá Víkurkirkju að hlíðum Víkurheiðar, inn með hlíðunum neðan við Bratthól, framhjá Norður-Víkurgerði upp á Bæjarhrygg. Með hryggnum norðanverðum,  framhjá gamalli sundlaug að Grafargili. Með gilinu að austanverðu og upp á Veðurháls. Farið á vaði (eða stiklað á steinum) yfir Víkurá og gengið vestur fyrir Grafarhól að norðan. Þar er farið framhjá hestaleiði og svo að Grafargili. Gengið eftir gilinu framhjá brúarstæði sauðabrúar sem þar var og sauðabóli fram á gamla þjóðveginn um Grafargil. Yfir brúna og eftir veginum upp á brún og síðan eftir Víkurgili og Syngjanda að upphafstað.

Grafargil. Mynd: Máni.

Leiðir sem hefjast í Þakgili

Mælifell

Vegalengd: 11 km            

Hækkun: 400-500m              

Tími: 4-5 klst.                    

Upphafsstaður: Þakgil. Fært er á öllum bílum inn í Þakgil. Ekið er af þjóðvegi [1] um Kerlingardalsveg [214] og áfram inn heiðarnar (gamla þjóðveginn).

Leiðarlýsing: Gengið er frá Þakgili að Miðfellshelli en þar lágu gangnamenn við á haustin. Þaðan er gengið eftir vegarslóða með Miðfell á hægri hönd. Upp Miðafrétt austan Miðtungugils inn að fossinum Leyni. Þaðan til suðurs upp á Mælifell og um austurbrúnir Raufargils suður á Barð, niður að skála Ferðafélags Mýrdælinga og þaðan aftur í Þakgil. Hugsanlegt er að varða þurfi Affréttisána á leiðinni í Þakgil, það fer þó eftir því hvernig áin liggur.

Affrétisá og skálinn Ferðafélags. Mynd: Máni

Austurafréttur

Vegalengd: 17 km            

Hækkun: 500-600 m              

Tími: 6-8 klst.                    

Upphafsstaður: Þakgil. Fært er á öllum bílum inn í Þakgil. Ekið er frá þjóðvegi [1] um Kerlingardalsveg [214] og áfram inn heiðarnar (gamla þjóðveginn).

Leiðarlýsing: Gengið eftir Þakgili að Miðfellshelli en þar lágu gangnamenn við á haustin. Þaðan er gengið eftir vegarslóð með Miðfell á hægri  hönd, upp Miðafrétt austan Miðtungugils inn að fossinum Leyni, þaðan norður um Sker (749 m) austur á Rjúpnagilsbrýr , síðan er gengið niður Austurafrétt (Höfðabrekkuafrétt), að Iðrunarstandi, um Árnabotna og Vestureggjar og þaðan niður í Þakgil ( G-10) eða á vegarslóð austan Hvolhöfuðs.

Rjúpnafell. Mynd: Jónas Erlendsson

Remundargil

Vegalengd: 12,5 km            

Hækkun: 250 m              

Tími: 3-5 klst.                    

Upphafsstaður: Þakgil. Fært er á öllum bílum inn í Þakgil. Ekið er af þjóðvegi [1] um Kerlingardalsveg [214] og áfram inn heiðarnar (gamla þjóðveginn).

Leiðarlýsing: Gengið er frá Þakgili fram gilið, farið er upp austan megin á móts við Miðfellshelli og yfir hálsinn í austur átt að Remundargili. Þegar komið er niður í gilið er gengið inn eftir því inn að Remundargilsfossi. Gengið er til baka sömu leið að hluta og fram úr gilinu fram fyrir Remundargilshöfuð. Gengið er inn með Remundargilshöfði inn gil milli þess og Vatnsrásarhöfuðs. Þar upp í skarðinu er stórkostlegt útsýni yfir Höfðabrekkujökul sem brýst fram úr Mýrdalsjökli. Til baka er gengið í gegnum Láguhvola, framan við Hvolhöfuð og veginum svo fylgt inn í Þakgil.

Remundargilsfoss. Mynd: Máni

bottom of page